Félagarnir í ADHD héldu magnaða djasstónleika í Bókasafni Sandgerðis
Færri komust að en vildu
Það var langþráð stund að komast loksins á tónleika eftir ástandið og inniveruna sem kórónuveirufaraldurinn skapaði. Þeir félagar sem skipa ADHD hafa notað þessa undarlegu tíma til að taka upp efni á tilvonandi plötu, ADHD 8, og þeir léku ný lög fyrir tónleikagesti í bland við önnur eldri og „sum alveg hundgömul,“ eins og sagði í kynningu.
Tónleikagestir voru ekki sviknir þegar bandið galdraði fram seiðmagnaða tóna í Bókasafninu. Músíkin var hreint unaðsleg og það er ótrúlegt hvað litlir hlutir eins og LED-ljós af AliExpress geta breytt miklu til að laða fram dulmagnaða stemmningu tónleikastaðarins.
Halldór Lárusson, skólastjóri Tónlistarskóla Sandgerðis og aðaldriffjöður Jazzfjelags Suðurnesjabæjar, hefur verið óþreytandi við að halda tónleika sem þessa. Eftir tónleikana taldi hann þessa sennilega hafa verið þá tíundu sem Jazzfjelagið heldur en það var stofnað árið 2019 af Halldóri. „Hljómlistamenn vilja spila hjá okkur, þetta hefur spurst út og það komast færri að en vilja,“ sagði Halldór. „Það er meira að segja farið að bera á áhuga erlendis frá en nokkrir erlendir tónlistarmenn hafa spilað hérna.“
Meðlimir ADHD eru saxófónleikarinn Óskar Guðjónsson, gítarleikarinn Ómar Guðjónsson, Tómas Jónsson sem leikur á píanó og trommuleikarinn Magnús Tryggvason Eliassen og þeir léku langt fram yfir áður auglýsta dagskrá. Þegar hljómsveitin þakkaði fyrir sig óskaði saxófónleikari sveitarinnar, Óskar Guðjónsson, Suðurnesjabúum til hamingju með að eiga svona öflugt félag, Jazzfjelag Suðurnesjabæjar og Halldór svaraði að bragði: „Ef það er ekki menning á staðnum þá verður maður að búa hana til.“
Framundan hjá Jazzfjelaginu eru tónleikar í Bókasafni Sandgerðis aftur þann 26. mars og hvetur sá sem þetta ritar allt tónlistaráhugafólk til að fylgjast með dagskránni. Það er eitthvað svo töfrandi við að upplifa lifandi og vandaða tónlist.
Í spilaranum hér að neðan má sjá samantekt frá tónleikunum.